Viðurlög við því að beita heimilisofbeldi voru milduð í Rússlandi fyrir ári síðan. Baráttufólk fyrir mannréttindum hefur ítrekað reynt að fá stjórnvöld til að bæta úr því, án árangurs. Sérfræðingur segir erfitt fyrir þolendur heimilisofbeldis að fá aðstoð lögreglu.
Ef hann lemur þig, elskar hann þig. Þannig hljómar gamalt rússneskt orðatiltæki. Enn þann dag í dag búa margar rússneskar konur við heimilisofbeldi. Samkvæmt lögum sem voru samþykkt með miklum meirihluta í rússneska þinginu í fyrra hefur verið dregið úr refsingum við heimilisofbeldi.
Erfiðara fyrir þolendur að sækja rétt sinn
Anastasia Chuvaeva, sérfræðingur hjá Miðstöð fyrir þolendur heimilisofbeldis í Sankti-Pétursborg, segir að afleiðingar lagabreytingarinnar hafi verið slæmar fyrir skjólstæðinga miðstöðvarinnar og konur almennt í Rússlandi. Nú sé mun erfiðara fyrir þær að sækja rétt sinn ef þær verða fyrir ofbeldi af hálfu maka. Það hafi þó ekki verið auðvelt áður.
Lagabreytingin í fyrra fór ekki hátt í Rússlandi. „Það er eins og samfélagið átti sig ekki á vandanum. Þegar lagabreytingarnar voru í undirbúningi þá var málið ekki áberandi í opinberri umræðu,“ segir Anastasia.
Fá þau svör að ofbeldið sé einkamál fjölskyldunnar
Það viðhorf er ríkjandi að heimilisofbeldi sé vandamál sem fólk eigi að leysa heima, sín á milli. „Konur fá oft þau svör hjá lögreglu að ofbeldið sé einkamál fjölskyldunnar. „Af hverju ertu að leita til okkar? Þetta er ekki neitt sem lögreglan á að leysa. Þið eigið að leysa þetta ykkar á milli,“ er sagt við þær þegar þær leita til lögreglunnar.“
Skráningu heimilisofbeldis ábótavant
Í miðstöðinni er hjálparsími opinn alla virka daga og sérfræðingar aðstoða þolendur ofbeldis við lausn sinna mála. Konurnar fá meðal annars andlegan stuðning og aðstoð lögfræðinga við að tilkynna málin til lögreglu. Skráningu á ofbeldisbrotum er ábótavant og því erfitt að segja til um hve margar konur verða fyrir ofbeldi af hálfu maka. Anastasia segir þó ljóst að heimilisofbeldi sé mjög algengt.
Gamla rússneska orðatiltækið, ef hann lemur þig, elskar hann þig, er enn notað. „Já, þetta er rétt, þessi frasi heyrist enn í dag. Eins ótrúlegt og það nú er þá segja konur þetta líka, að ofbeldi sé tákn um ást.“